INNLJÓS Sigurður Guðjónsson

Verk Sigurðar á sýningu hans INNLJÓS var eins konar óður til tækjanna sem honum og öðrum myndgerðarmönnum eru svo nærtæk að þau jafnast á við hljóðfæri og hljómtæki tónlistarmannsins og tónskáldsins. Þau eru áhöldin sem myndlistarmanni samtímans eru nauðsynleg, rétt eins og dráttarvélin og vélorfið eru bóndanum. En svo vakna ýmsar spurningar varðandi útfærslu verkanna á Kleifum, sömu verkanna og áhorfendur nutu árið 2017 í kapellu hins aflagða Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði. Þótt verkin hafi verið hin sömu varð útkoman öll önnur. Eins og Sigurður útfærði vídeóverk sín mætti fremur líkja þeim við uppfærslur en innsetningar. Nýtt og öðruvísi rými færði til merkingu verkanna svo þau gengu í endurnýjun lífdaga og störfuðu í allt öðru inntaki í skjóli Hrúteyjar en í bænahúsi sjúkrahússins. Uppfærslan varð óhjákvæmilega hluti af verkinu.

No items found.