FLÓI / BAY Finnbogi Pétursson

Finnbogi Pétursson er í hópi fremstu samtímalistamanna þjóðarinnar. Hann lærði myndlist í Myndlista-og handíðaskóla Íslands á árunum 1979 til 1983 og stundaði framhaldsnám við Jan van Eyck Akademie íMaastricht í Hollandi frá 1983 til 1985. Hann hélt sína fyrstu einkasýningu í Time Based Arts í Amster-dam árið 1985 og hefur síðan haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum víða um heim.  Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001.

Myndlistasýningin FLÓI er opin alla daga frá klukkan 13.00 - 18.00 í Hillebrandtshúsinu sem stendur í gamla bænum á Blönduósi. Staðsetningin er merkt með appelsínugulu á kortinu hér fyrir neðan. Síðasti sýningardagur er sunnudagurinn 14. ágúst. Aðgangur er ókeypis.

No items found.

Flói

Finnbogi Pétursson, 2022  

 

Finnboga Péturssyni tekst það sem margir reyna en ekki er öllum gefið - að tengja saman list og vísindi með sannfærandi hætti og án tilgerðar. Þegar horft er yfir rúmlega fjörutíu ára langan myndlistarferil hans blasir við að hann er meira og minna alltaf að kljást við það erfiða verkefni að koma flóknum eðlisvísindum yfir á einfalt og auðskilið myndrænt form. Hann er eins og kennari með köllun sem er sífellt að miðla upplýsingum um dýpstu rök tilverunnar: Tímann, þögnina, eldinn, vatnið, fjarlægar stjörnur, skjálfandi jörð, eilífðina og bara öll þau öfl og krafta sem knýja alheiminn áfram. 

Finnbogi er tækjakall. Í verkum sínum nýtir hann flókna tækni af hugviti og útsjónarsemi og blandar saman elementum úr allskonar græjum til þess að framkalla þær myndir sem hann vill sýna áhorfandanum. Hann spilar á skynjun áhorfandans með því að varpa ljósi á gárótt vatnsyfirborð og draga með því síkvika geometríska teikningu upp á vegg, breyta húsbyggingu í hljóðfæri eða með því að fylla glerkúlu af segulbandi með upptöku af algjörri þögn. Slíkur tilflutningur af einu skynsviði yfir á annað veitir innsýn í aðra vídd og dýpkar listræna upplifun áhorfandans.

Það er samt ekki svo einfalt að hægt sé að segja að tilgangur Finnboga með listsköpun sinni sé að útskýra eðli alheimsins fyrir okkur hinum eða að rugla áhorfendur í ríminu með því að láta þau sjá það sem þau heyra eða öfugt. Líkt og allir góðir listamenn vinnur Finnbogi verk sín í mörgum lögum, bæði á dýpt og breidd. Og hann er rómantíker af guðs náð. Verkin hans búa ávallt yfir huglægri tengingu eða samsvörun við þátt í okkar daglega lífi eða hegðun sem er ekki endilega rómantískur í sjálfu sér og oftar en ekki eru upplýsingarnar studdar vísindalegum rökum. En í samspili við þá tæru mynd sem verkið sjálf birtir kallar þessi samanburður á milli mannlegrar tilveru og hinna miklu krafta náttúrunnar fram tilfinningu fyrir smæð mannsins frammi fyrir mikilfengleika náttúrunnar hjá þeim sem horfir á og nýtur. Það er oft sagt að það sé einmitt í slíkum tengslum, eða tengslarofi, sem hin ljóðræna dýpt eða listræna fegurð verði til. 

Verkið Flói býr yfir öllum þessum þáttum. Það á sér fyrirrennara í mörgum, ef ekki hreinlega öllum fyrri verkum Finnboga en bylgjur af ýmsum gerðum og stærðum eru eitt af hans aðalviðfangsefnum, s.s. ljós, hljóð, rafbylgjur, útvarpsbylgjur, skjálftabylgjur eða bylgjur í vatni. Hér fáum við að upplifa á eigin skinni sjávarföllin þar sem Húnaflóinn og Blanda mætast og það vita allir sem til þekkja að þar eru engir smákraftar á ferð. Tæknin er til staðar, stríðin og viðkvæm. Stór hluti búnaðarins er um borð í fleka, ofurseldur valdi úthafsöldunnar sem rís og hnígur hér utan við ósinn. Upplifunin inni í sjálfri innsetningunni er fyrst og fremst sjónræn en hún kallar fram sterka líkamlega tilfinningu fyrir jafnvægisleysi, mögulega flökurleika. Flekinn sjálfur hefur sem tákn margvíslega merkingu. Ekki síst hefur hann sterkar skírskotanir í samtímanum þegar daglega berast fréttir af fólki sem leggur líf og limi í hættu við að fleyta sér milli heimsálfa í einföldum bátkænum með þá von í brjósti að öðlast hamingju og betra líf.  

Gjörið svo vel, gangið inn. Ræsið skynfæri ykkar og ímyndunarafl og upplifið Flóann til fulls!

Áslaug Thorlacius

Finnbogi Pétursson er fæddur árið 1959. Hann nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands í Reykjavík og Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi. Verk eftir hann er að finna í opinberum söfnum og einkasöfnum víða um heim. Hann hefur haldið fjölda sýninga heima og erlendis. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001.

Samstarfsaðilar:

Ásdís Kristinsdóttir

Kristján Thorlacius

Blönduósbær


Sérstakar þakkir:

Ásdís Kristinsdóttir

Kristján Thorlacius

Halldór Eldjárn

Stefán Finnbogason

Þjóðleikhúsið

Halldór Örn Óskarsson

Þorgils Magnússon

Bergþór Gunnarsson

Ísfell á Sauðárkróki,

Jónas Logi Sigurbjörnsson

Sævar Rafn Hallgrímsson

Ásmundur Sigurkarlsson

Ásgeir Blöndal

Stígandi

Vegagerðin,

Greipur G Sigurðsson

Björgunarsveitin Blanda

Sævar Rafn Hallgrímsson

Eftirtaldir aðilar styrktu verkefnið: